Færsluflokkur: Dægurmál

Höfuðkúpan samansaumuð

Datt í hug að þessi fyrirsögn myndi kannski grípa þig!

Í gær settist ég við saumaskap og það í höndum. Mér leið eins og lækni að tjasla saman öryggisverði í 10/11. Nei má ekki segja svona.
En búinn er ég að setja saman grunn að höfði. Held að Sæunn sé endanlega að fá nóg af þessu brölti mínu. Hér fyrir neðan sjáið þið þetta samansaumað. Takið eftir, á einni myndinni er gamla saumavélin hennar ömmu heitinnar. Græn og flott. Og virkar vel. Hún er eldri en ég, að ég held.
Næst er að klæða hausinn með einhverju sniðugu. Og kannski búa til eyru og augu sem blikka er nauðsyn.

svampur2svampur3svampur4


Svampur verður að kúpu

svampurVeit ekki hvort fólk sé búið að fá nóg af þessu puppet brölti mínu. En ég er svona mest að skrá þetta fyrir sjálfan mig, hvað ég er að gera hvenær.
Á flakki mínu fyrir helgina, rakst ég á síðu sem heitir puppethub.com, og þar sameinast brúðunördar heimsins sýnist mér. Allt frá amatörum eins og mér og upp í atvinnumenn. Þannig að ég er ekki einn í heiminum lengur. Óska eindregið eftir íslenskum nördum í þessum geira. Ætli skapari Gláms og Skráms sé kominn á elliheimili? Nei, hann hlýtur að vera að gera eitthvað sniðugt í dag.

 Fyrir helgina átti ég spjall við drengi frá Kanada, Bandaríkjunum og Bretlandi um þessa blessuðu smíði mína. Einn af þeim átti fínar teikningar af svampbrúðum. Þar sem ég átti heila dýnu af svampi, ákvað ég að sníða með hjálp Sæunnar. Hún eiginlega tók völdin af mér og skar út sniðin fyrir mig. Henni leið eins og skurðlækni veifandi hárbeittum hnífnum. Hér fyrir ofan sjáið þið hvað ég er kominn langt. Til að útskýra hvað er á myndinni, er þetta hálfgerð hauskúpa. Fyrir ofan er framhlutinn og sést móta fyrir munnopi og fyrir neðan er afturhluti kúpunnar. Næsta skref er að koma þeim saman og ákveða svo endanlegt útlit. Kannski geri ég eitthvað brjálað fjólublátt skrímsli. Kökuskrímsli eins og Svava stakk upp á. Ég er strax kominn með brunablöðrur á fingurnar eftir heitt límið. Ég er ekki að nota rétta límið. En í spenningi mínum ákvað ég að byrja strax.
Ég tek enn við svampi! Líka ef fólk á loðið áklæði eða eitthvað efni sem er svolítið loðið og flöffí.


Á morgun kemur sumar

Samkvæmt dagatalinu er Sumardagurinn fyrsti á morgun.
Við höfum fengið sól og blíðu síðustu daga. Maður krossar fingur og vonar að þetta sé allt að koma. Maður sér mun á hverjum degi, á snjónum í görðunum.  Pabbi hefur verið að pikka í snjóinn á pallinum hjá sér.
Í morgun vildi Svava Rún hjóla í leikskólann, sem er notabene c.a 4 km. Þar sem við fórum ekki mjög snemma á fætur, þá var ekki í boði að hljóla alla leið. Við sömdum um það að mamma hennar myndi láta okkur út á leiðinni og hjólið færi í skottið. Og rölti ég með henni og hún hjólaði frá Orkubúi Vestfjarða. Af stað hjólaði hún voða grobbin án hjálpadekkja. Sólin skein og mikil umferð á hjólastígnum. Maður fer bráðum að heimta breikkun reiðhjólastíga eins og fyrir sunnan! Á kvöldin sér maður fólk hjóla, ganga, skokka og á línu skautum eftir þessum fína stíg.

Á Langa Manga í vikunni kviknaði smá hugmynd með þessar blessuðu brúður mínar, sem eru farnar að flækjast fyrir fólki heima. Þær gætu farið að fá hlutverk blessaðar. Þarf að skella í minnsta kosti eina í viðbót. Og yrði það eftirmynd einnar persónu. Mér finnst það ævintýraleg persóna svolítið.  Það er smá hugmynd á borðinu með tónlistarmyndband. Spennandi og gaman býst ég við ef þetta tekst vel.  Það er svo mikið af hæfileikaríku og sniðugu fólki í kringum mann sem hægt er að nýta nefnilega. Maður þekkir alltaf einhvern sem kann hlutina ef maður kann það ekki sjálfur.

Ég segi bara fyrirfram, gleðilegt sumar!


Skilinn eftir í kuldanum

2541_TEN-Parque-Santiago-01Sæunn er þessa stundina stödd um borð í vél á leið til Tenerife, ásamt systrum mínum 2, mágkonu, mömmu, Bergrós og Dagný frænkum mínum og Diddu vinkonu mömmu.
Þetta er svona stelpuferð. Hér til hliðar er mynd af hótelinu sem þær verða á. Stelpurnar allar koma eftir viku og þá kemur pabbi og ásamt kallinum hennar Diddu.
Og sit ég einn eftir með börn og bú. Ég giska á að Sæunn verði í c.a 20-25 stiga hita eftir nokkra tíma. Hér er -1 gráða. Ekki slæmt samt.
Fyrsta nóttin var sæmileg. Elma er samt að springa úr frekju þessa dagana. Tekur upp á því að vakna á milli 5 og 6 og vill fara fram og helst horfa á Stubbana eða Dýrin í Hálsaskógi. Dýrin í Hálsaskógi á betur við mig. Þar er húmor og skemmtileg heit. Stubbarnir eru svolítið heiladeyfandi.  Sú eldri er hins vegar eins og unglingur, vill helst sofa frameftir og helst fá að vera heima, í staðinn fyrir að fara í leikskólann. Samt er það allt horfið þegar mætt er í leikskólann og hún hittir vinkonur sínar.  Svo er fastur liður á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Að keyra í ballet á viðvikudögum og tónlistarskólann á fimmtudögum og þriðjudögum. En þetta breytist allt þegar Svava Rún fer í skóla. Litla barnið mitt er að fara í skóla!! Veit ekki fyrr en ég er farinn að fæla burtu stráka sem standa í röðum. Tíminn líður hratt.


Rakararaunir karlmannsins

Gilette_Ferrari_Promotion.f4f Ég er karlmaður og mér vex skegg. Einu sinni lét maður vaxa hitt og þetta á andlitið á sér. Kleinuhringurinn var vinsæll á sínum tíma og hommaskeggið. Eftir að ég grenntist þá hætti kleinuhringurinn að passa á andlitið á mér.
Síðustu vikur hef ég verið svolítið á ferðinni. Bæði suður og norður. Áður en ég fór norður, fann ég ómögulega Gilette Mach3 Power rakvélina mína (þessa með titraranum). Man ómögulega hvort ég tók hana með mér suður síðast eða hvenær ég notaði hana. Þannig að ég fór órakaður norður og lét allt vaxa yfir þá helgi. Kom svo heim aftur og keypti mér Gilette Fusion eitthvað með 5 rakblöðum og titrara. Notaði hana með góðum árangri. Svo fylgdi auðvitað bara eitt blað með henni, og hélt í einfeldni minni að ég gæti notað gömlu Mach3 blöðin, en nei auðvitað passaði það ekki saman! Þannig að ég fann gamla prikið af fyrstu Gilette vélinni minni, sem ég fékk örugglega senda þegar ég varð 16 ára! Viti menn, Mach3 (eða var það 4?) pössuðu á hana. Ég þurfti bara að búa til zzzzzzzzzz hljóðið á meðan ég rakaði mig og fékk þennan fína rakstur. vildi að maður gæti tekið einhverjar töflur við skeggvexti og haldið þessu bara í skefjum. Ef einhver er með gömlu power vélina mína, má hinn sami eiga hana. Gæti rakað hamsturinn sinn eða eitthvað.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband