Færsluflokkur: Menning og listir

Smá forsýning

Ef ég myndi nú ekki komast í nein úrslit með þessa geimveru þá er hún til sýnis hérna. Stelst til að birta hana hérna á litla Íslandi. En þessi kauði er sko kominn í landsliðið!
Ég fór með Baldri í dag niður í Neðsta kaupstað að taka myndir af honum. Svo bjó ég til smá sögu um hann og gaf honum nafnið Galdur. Smá íslenskt.

Geimvera340 1Geimvera340 2Geimvera340 6

 

 


Hrekkjusvín úr kuldanum...

Smá fikt. Í raun sama takan og hér einhvers staðar neðar. Bara slitin úr samhengi og smá verið að spreyta sig á green screen töktum. En lagið er gott.


Saumadrengurinn

almost

Ég settist sjálfur við saumavélina á helginni. Hélt að þetta væri meiri vísindi á bakvið notkun á saumavél. Enda var ég nú ekki að gera neitt flókna hluti.  Saumaði "andlit" á þennan nýja karakter, og hendur eru tilbúnar til fyllinga. Hef ekki tíma í meiri saumaskap næstu daga. Er að fara í borgina í smá vinnuferð. Námskeið og fundir. Svo tekur við ein fermingarveisla.

Í dag er sól og sumar. Það er verið að þvo gluggana á vinnustaðnum mínum og maður er farinn að sjá örlítið út. Held ég fái fínt veður til að fljúga.
Þessa helgi var ansi fjölmenn hér á Ísafirði. Blakmót og gönguskíðamót. Einhverjir komust nú ekki heim í gær, það var ekki hægt að fljúga fyrr en seinnipartinn.


Höfuðkúpan samansaumuð

Datt í hug að þessi fyrirsögn myndi kannski grípa þig!

Í gær settist ég við saumaskap og það í höndum. Mér leið eins og lækni að tjasla saman öryggisverði í 10/11. Nei má ekki segja svona.
En búinn er ég að setja saman grunn að höfði. Held að Sæunn sé endanlega að fá nóg af þessu brölti mínu. Hér fyrir neðan sjáið þið þetta samansaumað. Takið eftir, á einni myndinni er gamla saumavélin hennar ömmu heitinnar. Græn og flott. Og virkar vel. Hún er eldri en ég, að ég held.
Næst er að klæða hausinn með einhverju sniðugu. Og kannski búa til eyru og augu sem blikka er nauðsyn.

svampur2svampur3svampur4


Svampur verður að kúpu

svampurVeit ekki hvort fólk sé búið að fá nóg af þessu puppet brölti mínu. En ég er svona mest að skrá þetta fyrir sjálfan mig, hvað ég er að gera hvenær.
Á flakki mínu fyrir helgina, rakst ég á síðu sem heitir puppethub.com, og þar sameinast brúðunördar heimsins sýnist mér. Allt frá amatörum eins og mér og upp í atvinnumenn. Þannig að ég er ekki einn í heiminum lengur. Óska eindregið eftir íslenskum nördum í þessum geira. Ætli skapari Gláms og Skráms sé kominn á elliheimili? Nei, hann hlýtur að vera að gera eitthvað sniðugt í dag.

 Fyrir helgina átti ég spjall við drengi frá Kanada, Bandaríkjunum og Bretlandi um þessa blessuðu smíði mína. Einn af þeim átti fínar teikningar af svampbrúðum. Þar sem ég átti heila dýnu af svampi, ákvað ég að sníða með hjálp Sæunnar. Hún eiginlega tók völdin af mér og skar út sniðin fyrir mig. Henni leið eins og skurðlækni veifandi hárbeittum hnífnum. Hér fyrir ofan sjáið þið hvað ég er kominn langt. Til að útskýra hvað er á myndinni, er þetta hálfgerð hauskúpa. Fyrir ofan er framhlutinn og sést móta fyrir munnopi og fyrir neðan er afturhluti kúpunnar. Næsta skref er að koma þeim saman og ákveða svo endanlegt útlit. Kannski geri ég eitthvað brjálað fjólublátt skrímsli. Kökuskrímsli eins og Svava stakk upp á. Ég er strax kominn með brunablöðrur á fingurnar eftir heitt límið. Ég er ekki að nota rétta límið. En í spenningi mínum ákvað ég að byrja strax.
Ég tek enn við svampi! Líka ef fólk á loðið áklæði eða eitthvað efni sem er svolítið loðið og flöffí.


Svampurinn skilar sér til mín

purpleFólk hefur verið að gauka að mér svampi. Fékk heila dýnu frá Steina og Evu, nágrönnum mínum. Marta kom í vinnuna til mín með fínan og nettan svamp. Takk fyrir svampinn. Fyrir vikið gat ég klára einn skemmtilegan karakter. Eftir að munnurinn var settur á sinn stað. Kom í ljós að ég hafði eitthvað klippt skakkt munngatið. Greyið varð frekar skakkur allur. Og var hann næstum því settur í ruslið. En þegar ég var búinn að föndra nýja tegund af augum, þá var hann allt í einu kominn með nýjan karakter. Skemmtilega ljótur. Nokkuð sáttur við drenginn. Er að ákveða mig hvort ég eigi að splæsa tönn eða tönnum upp í gæjann.
Ég á nóg af svampi í bili sýnist mér. Ekki nema einhver eigi svamp sem er sléttur báðum megin og c.a 2-3 cm á þykkt.
Lystadún virðist ekki eiga nógu stóra afganga hehe.

Svampur....

Ekki Sveinsson samt.
Mig vantar svamp í ýmsum stærðum. En ekkert þykkan samt. Ef einhver er að taka til hjá sér í geymslum og öðrum stöðum, þá má hinn sami hugsa til mín. Er að gera smá tilraunir.
Það er ótrúlegt ef maður ætlar að leita að fyrirtækjum sem selja svamp, og ætlar að gúggla fyrirbærið "svampur", þá fær maður undantekningarlaust eitthvað um Svamp Sveinsson!
Hér kemur afrakstur svampssöfnunar minnar. Á eftir að sauma annan dreng í viðbót.

 Svo er ég árinu eldri í dag. Á MSN biðu mín nokkrar afmælisóskir.


Master of Puppets

brúðaÉg fæ stundum flugur í hausinn að gera ýmsa hluti. Alltaf verið svolítill föndrari í hinu og þessu. Allt frá því að klippa saman fyndið ættarmótsmyndband, taka upp lag með dóttur minni. Já eða blogga í 7 ár. Teikna á blað eða í tölvu. Þið skiljið?
Nýjasta flugan er ekkert endilega ný fluga. Því ég hef stúderað þetta í smá tíma. Og haft áhuga á síðan ég var smá patti. En þetta er bara byrjunin. Fólk hristir svolítið hausinn þegar ég er að útskýra hvað ég er að gera, þegar mig vantar hin furðulegustu efni eins og svamp og svona loðið efni eins og er t.d notað í hárskraut á stelpur, hvítar kúlur og tróð.  En lét verða af því og fyrsta brúðan er komin í heiminn!
Ég veit að Búbbarnir voru ekki sniðugir. Á þá samt á DVD! Prúðuleikararnir voru snilld. Glámur og Skrámur líka. Palli Vilhjálms er einn af mínum bestu vinum.
Hér er hann rauðhærður og sætur í bol af frænda sínum. Vantar bara nafn á hann.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband