Hef tilkynnt um flutning af www.simnet.is/steingrimur. Vonast til að fólk finni mig á endanum hérna. Í dag hvarf öll fjölskyldan mín og skildi mig eftir hérna fyrri vestan. Sæunn, Svava Rún og Elma Katrín flugu suður seinni partinn í dag. Svava er að fara í eftirskoðun eftir augnaðgerð sem hún fór í fyrir svolitlu síðan. Svo stekk ég norður til Akureyrar á föstudaginn.
Var í borginni síðustu helgi. Fundur á föstudeginum og svo var árshátíð á laugardeginum Ansi öflug hátíð, með stórum listamönnum og nóg af vökva og mat. Gaman að hitta gamla vinnufélaga. Skemmtilegt fannst mér að hitta Eyþór Bergmanns og Hauk Harðar, gamla æskufélaga. Við erum einmitt gamlir skátar og úr árgangi 1975 að vestan. Á sama augnabliki hittum við gamla vinkonu að austan, Guðrúnu Helgu, sem fór með okkur til Færeyja hérna um árið á skátamót. Spurði hún okkur svo frétta af jollaranum eins og hún kallaði hann. Átti hún þá við Jón Geir sem var með förinni. Hann var þekktur fyrir að jóðla á öllum stundum. Ég gat nú bara bent henni upp á svið, því Ampop hefði nýlokið við að spila.
Ingvar Valgeirs félagi minn, var með skemmtilegt gítarminningarblogg um daginn. Datt í hug að prufa að rifja upp gítarana mína eins og hann.
Marina: Fyrsti rafmagnsgítarinn sem ég keypti hét Marina. Hann var keyptur í einhverri verslun á laugarveginum, c.a árið 1988, sem var ekkert þekkt sem hljóðfærabúð. Kostaði 10þús kall man ég án tösku. Lét senda hann í póstkröfu heim, því ég var ekki með aur á mér. Þetta var svona stratocaster eftirlíking. Engan átti ég magnarann í einhvern tíma. Tengdi gítarinn bara við gamlan græjumagnara. Unnar Reynis keypti sér eins bassa stuttu seinna.
Yamaha FG 420A: Fyrsti kassgítarinn sem ég keypti. Stebbi Baldurs hafði keypt sér svona suttu áður, og ákvað bara að kaupa eins. Pantaður í póstkröfu úr Paul Bernburg á Rauðárstíg árið 1990.
Epiphone Les Paul: Svartur með gylltu hardware. Geðveikt fallegur rafmagnsgítar og sé mest eftir að hafa selt þennan grip. Keypti hann í Rín, sama ár og Whitesnake spiluðu í Reiðhöllinni, sem hefur verið árið 1991. Seldi Valda félaga mínum hann ásamt magnara. Valdi er í dag, bassaleikari í hljómsveitinni Reykjavík!. Valdi tók sig til og bólstraði eða teppalagði gítarinn. Ef einhver veit um hræið af honum í dag, langar mig í það.
Samick: Þetta var svona rauður blúsgítar. Ætli ég hafi ekki keypt hann, því hann var svipaður og Oasis notaði (keyptur 1996). Ágætis gítar, keypti hann óséðan. Hávarður keypti af mér gripinn
Saga Guitar Tele building Kit: Með fyrsta dótinu sem ég keypti á Ebay, árið 2004. Þetta var svona kit sem maður keypti pússaði, sprautaði og setti saman. Úr varð helvíti töff blásanséraður Telecaster eftirlíking. Þar sem ég fæ alltaf samviskubit yfir hljóðfærum sem rykfalla heima hjá mér, seldi ég Inga frænda mínum hann. Ingi notar hann vonandi í dag.
Martin Backpacker: Enn og aftur var farið á Ebay.com. Þetta er eitt sniðugasta hljóðfæri sem ég keypt. Það má segja að þetta sé spýta með 6 strengjum. Eins og nafnið segir, bakpokagítar. Fínn í ferðalagið. Keypti hann á Ebay árið sem ég átti stórafmæli, árið 2005. Á hann enn og mun ekki selja hann.
Garrison G-30E: Árið 2005 var gott gítarár. Og mikið að gera í trúbadorabisness. Langaði í góðan kassagítar með pickup. Síðan ég eignaðist hann, hef ég ekki fundið neinn betri kassagítar en minn. Kannski Garrison gítarinn hans Ingvars sé aðeins betri, enda mun dýrari.
Önnur strengjahljóðfæri sem hafa borist mér, er hægt að telja djammgítar sem ég keypti af Sverri Karli heitnum, sem ég fór með á Eldborgarhátíð 1992. Sá gítar fékk rigningu og rok. Sprautaður aftur eftir það. Pússaður niður og bæsaður. Svo er einn gítar í minni umsjá sem dagaði uppi hjá mér, sem er antik. Lét gítarsmið laga hann.
Svo smíðaði ég balalaika í smíði í 10. bekk. Þetta er svona lítið rússneskt hljóðfæri. Svipað og mandólín að stærð.
Efast um að venjulegt fólk hafi haft gaman af þessu bloggi! En grunar að græju og gítaráhugamenn hafi áhuga.
Flokkur: Bloggar | 13.3.2007 | 21:25 (breytt kl. 21:25) | Facebook
Athugasemdir
Denderinn er í góðu yfirlæti, hef brúkað hann nokkrum sinnum og líkar vel. Sándar heiftarlega sérstakt :)
Ingi (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.